Í kallfæri við kirkjuna

25. júlí 2019

Í kallfæri við kirkjuna

Horft yfir til Lindakirkju frá Hádegishóli

Þegar staðið er fyrir framan Lindakirkju í Kópavogi og horft til vesturs blasir við lágreist og óvenjulegt mannvirki í göngufjarlægð sem ókunnir spyrja gjarnan hvað sé. Það sker sig óneitanlega frá hefðbundnum íbúðarbyggingum og verslunum þar í kring. Turnspíran á mannvirkinu er eilítið framandi og vekur athygli.

Svarið er að þarna sé stúpa Búddatrúarmanna.

Og hvað er nú það?

Stúpa er reist á bæna- og tilbeiðslustöðum Búddatrúarmanna til að minna á Búdda (563-483 f. Kr.) og kenningu hans. Útlit þeirra er mismunandi og eru þær elstu bjöllulaga. Þær eru misháar og misbreiðar um sig. Ein stærsta stúpa heims og með þeim elstu er á Sri Lanka, hún er 90 m á hæð og er frá 2. öld.

Búddistafélag Íslands lét reis stúpu í Smárahverfi í Kópavogi árið 1993. Hún er á lágri lyngvaxinni hæð með fallegu náttúrulegu grjóti allt um kring. Staðurinn kallast Hádegishóll eða Hádegishólar. Hólarnir eru úr blágrýti og þar má sjá hvalbök og jökulrendur. Frá stúpunni er gott útsýni yfir hverfið sem og yfir til Lindakirkju sem vígð var árið 2008.

Stúpan á Hádegishóli í Kópavogi er reist eftir tíbeskum reglum og hefðum. Allt form hennar sýnir kunnugum leiðir til innri þroska. Sjálf stúpan er tákn um uppljómaðan huga.
Stúpa Búddatrúarmanna í Kópavogi er notuð við margvísleg tækifæri. Á einni hátíð þeirra ganga þeir þrisvar sinnum í kringum hana og hafa ákveðna helgisiði um hönd.

Nú eru þeir tímar að samræður milli ólíkra trúarbragða eru í hávegum hafðar. Það er vel að fólk sem tilheyrir ólíkum trúarbrögðum ræðist við og fari yfir ýmsa þætti sem eru hugsanlega sameiginlegir með þeim og aðra sem greina þau að.

Samtal er yfirleitt forsenda góðrar niðurstöðu.

 



Stúpan á Hádegishóli í Kópavogi



  • Frétt

  • Menning

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...